Sveitarstjórn – 393. fundur – 11.09.2025
Á fundi samstarfsnefndar um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings vestra þann 10. september samþykkti samstarfsnefnd samhljóða að leggja til við sveitarstjórnir sveitarfélaganna að íbúakosningar um tillögu um sameiningu fari fram dagana 28. nóvember til 13. desember 2025 og að kosningaaldur miðist við 16 ár sbr. 3. mgr. 133. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Samstarfsnefnd beinir því til sveitarstjórnanna að þær kalli saman kjörstjórnir sveitarfélaganna til sameiginlegs fundar og óski eftir tilnefningu þriggja fulltrúa úr röðum kjörstjórnarfulltrúa til setu í sameiginlegri kjörstjórn, þannig að annað sveitarfélagið fái einn fulltrúa en hitt tvo og jafn marga til vara. Jafnframt verði gert ráð fyrir að kjörstjórnir sveitarfélaganna verði skipaðar undirkjörstjórnir til að sjá um framkvæmd íbúakosninganna í hvoru sveitarfélagi fyrir sig.

„Sveitarstjórn samþykkir að íbúakosningar um tillögu um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings vestra fari fram dagana 28. nóvember til 13. desember 2025 og að kosningaaldur miðist við 16 ár sbr. 3. mgr. 133. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að kalla kjörstjórn til sameiginlegs fundar kjörstjórna Dalabyggðar og Húnaþings vestra í samráði við sveitarstjóra Dalabyggðar og óska eftir að kjörstjórnirnar tilnefni þrjá fulltrúa úr sínum röðum í sameiginlega kjörstjórn vegna íbúakosninganna og þrjá til vara samkvæmt tillögu samstarfsnefndar.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.