Sveitarstjórn – 395. fundur – 23.10.2025

Sveitarstjórn – 395. fundur – 23.10.2025

Oddviti setti fund og óskaði eftir að taka á dagskrá sem 3. dagskrárlið tillögur sameiginlegrar kjörstjórnar Dalabyggðar og Húnaþings vestra og 4. dagskrárlið fyrirhugaðar breytingar á tollflokkun fjór- og sexhjóla. Samþykkt samhljóða.
Lagt fram skilabréf samstarfsnefndar um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings vestra dags. 21. október 2025 ásamt fylgiskjölum. Skv. 2. mg. 119. gr. sveitarstjórnarlaga skal sveitarstjórn taka málið á dagskrá án atkvæðagreiðslu.
Í skilabréfinu kemur fram að samstarfsnefndin kom saman á sjö bókuðum fundum. Samstarfsnefnd skipaði starfshópa sem fjölluðu um málaflokka sveitarfélaganna og lögðu fram efni og upplýsingar í greiningu og tillögugerð, auk þess sem samstarfsnefnd hefur haldið tvo íbúafundi í hvoru sveitarfélagi til að eiga samráð við íbúa og kynna stöðu viðræðna.

Álit samstarfsnefndar er svohljóðandi:

„Dalabyggð og Húnaþing vestra eru lík að landkostum, íbúasamsetningu, búsetumynstri og atvinnulífi. Við sameiningu sveitarfélaganna yrði að mati nefndarinnar til öflugra sveitarfélag með sterkari stjórnsýslu, faglegri þjónustu og meiri slagkraft í hagsmunagæslu til að byggja upp innviði og auka fjölbreytni í atvinnulífi eins og sjá má í greiningargögnum samstarfsnefndar. Nefndin telur að sameining myndi stuðla að aukinni byggðafestu og auka aðdráttarafl fyrir nýja íbúa og starfsmenn. Helstu áskoranir sameinaðs sveitarfélags væru að tryggja jafnt þjónustustig, viðhalda staðbundnum sérkennum og tryggja að íbúar upplifi áfram nálægð og öryggi í þjónustu. Nefndin telur að mæta megi þeim áskorunum og leggur áherslu á að t.a.m. verði Húnvetningar áfram Húnvetningar og Dalamenn áfram Dalamenn þótt stjórnsýslueiningarnar tvær sameinist.

Fjárhagur sameinaðs sveitarfélags yrði sterkur og fjárfestingargeta þess betri en hjá sveitarfélögunum hvoru um sig. Sérstök sameiningarframlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á næstu árum myndu auka svigrúm til fjárfestinga í sameinuðu sveitarfélagi, minnka þörf á lántöku og lækka fjármagnskostnað. Jafnframt hefur verið kynnt að reglubundin framlög Jöfnunarsjóðs munu hækka í sameinuðu sveitarfélagi ef af verður.

Það er samdóma álit samstarfsnefndar um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings vestra að sameining væri framfaraskref fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra.“

Sveitarstjórn þakkar samstarfsnefnd fyrir vel unnin störf og felur henni að sjá um kynningu sameiningartillögunnar skv. 4. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga. Sveitarstjórn hvetur íbúa til að kynna sér málið og taka þátt í kosningunum sem fram fara 28. nóvember til 13. desember nk.