Samstarfsnefnd um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings vestra hefur skilað áliti sínu til sveitarstjórna sveitarfélaganna tveggja, sem hafa tekið þær til umræðu skv. 119. grein sveitarstjórnarlaga.
Álitið er svohljóðandi:
„Dalabyggð og Húnaþing vestra eru lík að landkostum, íbúasamsetningu, búsetumynstri og atvinnulífi. Við sameiningu sveitarfélaganna yrði að mati nefndarinnar til öflugra sveitarfélag með sterkari stjórnsýslu, faglegri þjónustu og meiri slagkraft í hagsmunagæslu til að byggja upp innviði og auka fjölbreytni í atvinnulífi eins og sjá má í greiningargögnum samstarfsnefndar (fylgiskjal I). Nefndin telur að sameining myndi stuðla að aukinni byggðafestu og auka aðdráttarafl fyrir nýja íbúa og starfsmenn. Helstu áskoranir sameinaðs sveitarfélags væru að tryggja jafnt þjónustustig, viðhalda staðbundnum sérkennum og tryggja að íbúar upplifi áfram nálægð og öryggi í þjónustu. Nefndin telur að mæta megi þeim áskorunum og leggur áherslu á að t.a.m. verði Húnvetningar áfram Húnvetningar og Dalamenn áfram Dalamenn þótt stjórnsýslueiningarnar tvær sameinist.
Fjárhagur sameinaðs sveitarfélags yrði sterkur og fjárfestingargeta þess betri en hjá sveitarfélögunum hvoru um sig. Sérstök sameiningarframlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á næstu árum myndu auka svigrúm til fjárfestinga í sameinuðu sveitarfélagi, minnka þörf á lántöku og lækka fjármagnskostnað. Jafnframt hefur verið kynnt að reglubundin framlög Jöfnunarsjóðs munu hækka í sameinuðu sveitarfélagi ef af verður.
Það er samdóma álit samstarfsnefndar um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings vestra að sameining væri framfaraskref fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra“.
Álitinu fylgdu fundargerðir samstarfsnefndar, samantekt á forsendum samstarfsnefndar og minnisblað um aðgerðir til að auka byggðafestu sem tekið var saman í aðdraganda funda samstarfsnefndar með innviðaráðherra og þingmönnum kjördæmisins.
Erindi samstarfsnefndar til sveitarstjórna og fylgigögn:
Hlekkir á fundargerðir sveitarstjórna:
| 261. fundur sveitarstjórnar Dalabyggðar, 21. október 2025 |
| 391. fundur sveitarstjórnar Húnaþings vestra, 21. október 2025 |

