Ferli sameiningarviðræðna

Óformlegar viðræður

Sameiningarviðræður hefjast gjarnan á óformlegum viðræðum. Sveitarstjórnir hlutaðeigandi sveitarfélaga skipa þá verkefnishóp sem  kannar grundvöllinn fyrir formlegum viðræðum. Ekki er mælt fyrir um óformlegar viðræður í lögum og sveitarfélögunum er því í sjálfs vald sett hvernig að þeim er staðið. Engin skuldbinding felst í óformlegum viðræðum og sveitarstjórnir geta sagt sig frá þeim hvenær sem er.

Skipun samstarfsnefndar

Sveitarstjórnir ákveða að hefja viðræður um sameiningu og skipa samstarfsnefnd um sameiningu skv. 119. gr. sveitarstjórnarlaga. Taka þarf málið fyrir á tveimur fundum sveitarstjórnar.

Stöðugreining

Upplýsinga er aflað um starfsemi sveitarfélaganna, skipulag, fjárhag, áætlanir, samstarfsverkefni, lýðfræði, þjónustusvæði og fleira sem gefið getur vísbendingar um það hvað myndi breytast við sameiningu. Samráð var haft við starfsmenn og íbúa sveitarfélaganna á íbúafundum og vinnustofum. Skipaðir voru starfshópar til að fjalla um afmarkaða þætti í starfsemi sveitarfélaganna og meta kosti og ókosti sameiningar fyrir íbúa. Í tengslum við óformlegu viðræðurnar var unnin ítarleg stöðugreining sem mun verða lögð til grundvallar fyrir áliti samstarfsnefndar ásamt niðurstöðum samráðs við íbúa, starfsmenn, kjörna fulltrúa og fulltrúa úr fastanefndum. Stöðugreininguna má nálgast hér.

Mótun tillögu og álits

Samstarfsnefnd um sameiningu safnar upplýsingum og leitarf eftir sjónarmiðum íbúa og annarra hagsminaaðila. Samstarfsnefnd fer því næst yfir þau gögn sem safnað er í stöðugreiningu og dregur upp líklega framtíðarsýn fyrir sameinað sveitarfélag. Nefndin skilar áliti til sveitarstjórna sem taka það til umræðu á fundum án atkvæðagreiðslu.

Kynning tillögu og álits

Álit samstarfsnefndar er kynnt fyrir íbúum í aðdraganda kosninga. Kynningin stendur yfir í a.m.k. 20 daga. Haldnir eru kynningarfundir og kynningarefni er birt opinberlega með ýmsum hætti.

Íbúakosning

Að kynningu lokinni fara fram kosningar. Íbúakosningarnar standa yfir í tvær vikur að lágmarki og niðurstaða þeirra er bindandi. Einfaldur meirihluti kjósenda í hvoru sveitarfélagi fyrir sig þarf að samþykkja sameiningu til að af henni verði. Ákvörðun um kosningatímabilið liggur ekki fyrir en líklegt er að kosið verði í lok nóvember og byrjun desember.

Innleiðing

Ef íbúar samþykkja sameiningu er skipuð undirbúningsstjórn sem undirbýr gildistöku nýs sveitarfélags. Gerð er tillaga að nýrri samþykkt fyrir sveitarfélagið og verklagi við samræmingu reglna, sameiningu fjárhagskerfa o.fl. Gera má ráð fyrir að sameinað sveitarfélag tæki til starfa eftir sveitarstjórnarkosningar 2026.