Hér finnur þú svör við ýmsum spurningum sem íbúar hafa spurt samstarfsnefnd að. Ef þú finnur ekki svörin við spurningum sem brenna á þér geturðu sent okkur fyrirspurn og við birtum svarið hér.
Já, sveitarstjórnir Dalabyggðar og Húnaþing vestra hafa tekið ákvörðun um að hefja formlegar viðræður og skipað samstarfsnefnd um sameiningu. Í því felst skuldbinding til að gefa íbúum færi á að kjósa um sameiningartillögu. Kosningarnar munu fara fram þegar álit samstarfsnefndar liggur fyrir. Gert er ráð fyrir að kosið verði í nóvember.
Sveitarstjórnirnar hafa ekki ákveðið tímabil kosninganna en klíklega verður kosið í lok nóvember eða byrjun desember.
Þeir sem ekki komast á kjörstað geta kosið í póstkosningu eftir að kosningarnar hefjast. Hægt er að óska eftir því við kjörstjórn að fá kjörgögn send í pósti eða tölvupósti. Kjósandi þarf svo að koma atkvæði sínu ásamt fylgibréfi til kjörstjórnar fyrir lokun kjörstaða á lokadegi kosninganna.
Ákvörðun um nafn sveitarfélags er á valdi sveitarstjórnar á hverjum tíma. Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags ákveður því nafnið. Tillaga að nafni liggur ekki fyrir. Oft er leitað til íbúa um hugmyndir að nafni með hugmyndasamkeppni og/eða leiðbeinandi íbúakosningum um nafn.
Lagt er upp með að skólar og leikskólar starfi áfram á þeim stöðum þar sem þeir eru nú. Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags tekur ákvörðun um það hvort sameina eigi skólastofnanir eftir að hún tekur til starfa.
Leitað hefur verið eftir sjónarmiðum íbúa á íbúafundum sem haldnir hafa verið í tengslum við óformlegar sameiningarviðræður sveitarfélaganna. Gert er ráð fyrir að haldnir verði íbúafundir með svipuðu sniði í tengslum við formlegar viðræður og að sjónarmið íbúa verði höfð til hliðsjónar við mótun álits samstarfsnefndar og framtíðarsýnar.
Innan samstarfsnefndar hefur verið einhugur um að sameining leiði til bættrar þjónustu en ekki skerðingar. Bætt þjónusta kallar á mannafla og því ekki gert ráð fyrir uppsögnum. Mögulega verða gerðar breytingar á einhverjum störfum en það verður þá metið í hverju tilfelli fyrir sig. Eina starfið sem mun klárlega falla út er starf annars sveitarstjórans. Vert er að taka fram að í smærri sveitarfélögum er það oft svo að hver og einn starfsmaður hefur marga hatta. Með sameiningu gefast hins vegar tækifæri til aukinnar sérhæfingar í störfum. Í þessum málum er líka vert að taka fram að störf hjá sveitarélögum líkt og annarsstaðar taka sífelldum breytingum með nýjum verkefnum og auknum kröfum. Þær munu halda áfram að eiga sér stað óháð sameiningu.
Kosningarnar fara fram á tveggja vikna tímabili. Hægt verður að greiða atkvæði á tilgreindum kjörstöðum í hvoru sveitarfélagi á opnunartíma eða með því að senda atkvæði til kjörstjórnar. Kjósandi óskar þá eftir því við kjörstjórn að fá kjörgögn send til sín á það heimilisfang eða það netfang sem hann gefur upp. Heimilt er að bjóða kjósendum að greiða atkvæði á hreyfanlegum kjörstað og skal þá auglýst með fimm daga fyrirvara hvar kjörstaður er á hverjum tíma.
Ef sameiningin er samþykkt skipa sveitarstjórnir hlutaðeigandi sveitarfélaga undirbúningsstjórn sem hefur það hlutverk að undirbúa stofnun nýs sveitarfélags. Hlutverk undirbúningsstjórnar er að semja samþykkt um stjórn og fundarsköp sem gilda mun fyrir hið nýja sveitarfélag þar til því hefur verið sett sérstök samþykkt. Stjórnin tekur einnig ákvarðanir um fjárhagsmálefni hins nýja sveitarfélags, tekur saman yfirlit yfir allar samþykktir og reglugerðir sem gilda í þeim sveitarfélögum sem sameinuð hafa verið og skal hefja vinnu við endurskoðun þeirra og samræmingu.
Ef sameiningin verður samþykkt tekur hún líklega gildi í kjölfar sveitarstjórnarkosninga sem haldnar verða í maí 2026. Gildistakan yrði í júní þegar ný sveitarstjórn tekur við stjórnartaumunum.
Nei, það er ekki búið að ákveða að sameina sveitarfélögin. Einungis hefur verið tekin ákvörðun um að halda íbúakosningu um sameiningu sveitarfélaganna. Ákvörðunin um það hvort af sameiningunni verður er alfarið í höndum íbúa. Sé meirihluti kjósenda í báðum sveitarfélögum hlynntur sameiningu verður af henni en annars ekki.
Spurningarnar sem lagðar voru fyrir fundarmenn í hópavinnunni voru valdar með hliðsjón af svörum íbúa á fyrri íbúafundum þar sem fram kom að þessi atriði voru meðal þeirra sem íbúar hefðu mestar áhyggjur af. Þess má geta að bæði stjórnsýsla og þjónusta eru víð hugtök og ná saman yfir nær alla starfsemi sveitarfélaga. Spurningarnar voru opnar svo þær gæfu færi á að tala um hvað sem er sem varðar sveitarfélagið og brann á fundarmönnum.
Í máli fulltrúa Dalabyggðar á íbúafundinum kom fram að aðrir kostir hefðu verið skoðaðir áður en ákveðið var að gengið yrði til viðræðna við Húnaþing vestra og að sveitarstjórn hafi þótt þessu kostur vænlegastur til árangurs. Í könnun sem gerð var samhliða sveitastjórnarkosningum árið 2022 var ekki afgerandi munur á valkostunum tveimur og báðir þóttu því koma til greina.
Á stuttum tíma hefur Húnabyggð gengið í gegnum tvær sameiningar. Það tekur nokkurn tíma að ljúka sameiningu og að stilla saman stjórnsýslu sveitarfélaga. Því var það mat sveitarstjórnar Húnaþings vestra að samtal við Dalamenn væri vænlegra á þessum tímapunkti. Vert er að taka fram að sameining til vesturs útilokar alls ekki sameiningu til austurs seinna meir.
Á fundinum voru kynnt valin atriði af þeim sem samstarfsnefnd hefur skoðað. Aldursdreifing í dreifbýli var ekki meðal þess sem tekið var saman í vinnu samstarfsnefndar. Samstarfsnefndin getur því miður ekki svarað öllum spurningum sem íbúar kunna að óska svara við, en mun kanna hvort upplýsingar um þetta atriði eru aðgengilegar hjá Hagstofunni.
Sameining leysir ekki vanda bænda en aðstæður þeirra eru meðal þeirra hagsmuna sem eru sameiginlegir báðum sveitarfélögum. Samstarfsnefnd og sveitarstjórnirnar eru meðvitaðar um þann vanda sem stafar að atvinnugreininni og hafa ríkan vilja til að berjast fyrir hagsmunum íbúa sinna hvað þetta varðar eins og þeim er unnt. Samstarfsnefnd telur að sameinað sveitarfélag væri öflugri bakhjarl en sveitarfélögin hvort í sínu lagi.
Samstarfsnefndin hefur því miður ekki forsendur til að greina ástæður þess að íbúafjölgun á svæðinu hefur ekki verið í takt við fjölgun á landinu öllu. Sú staðreynd gefur ótvírætt til kynna að bregðast þurfi við til að snúa þróuninni við. Samstarfsnefnd telur að bætt þjónusta sveitarfélagsins og væntur árangur af auknum styrk í hagsmunagæslu fyrir íbúa geti stuðlað að aukinni byggðafestu og fjölgun íbúa.
Sú þjónusta sem íbúar sækja til Stykkishólms er alla jafna á vegum annarra en sveitarfélagsins, s.s. verslun og heilbrigðisþjónusta. Sú þjónusta mun áfram standa íbúum til boða hvort sem af sameiningunni verður eða ekki. Sé eftirspurn eftir þjónustu nágrannasveitarfélags og/eða hagkvæmara að sækja þjónustuna þangað er hægt að gera samninga við það sveitarfélag um að veita þá þjónustu sem við á. Hið sama ætti væntanlega við um þá sem búa austast í sveitarfélaginu ef sameiningin væri til vesturs.
Samstarfsnefnd telur að bætt þjónusta sveitarfélagsins og aukinn styrkur í baráttu fyrir bættum samgöngum og aðstæðum fyrir atvinnulífið geti stuðlað að auknum fjárfestingum sem leiði til fjölgunar starfa og fjölbreyttari atvinnutækifærum fyrir íbúa. Þannig geti sameining stuðlað að aukinni byggðafestu og fjölgun íbúa/skattgreiðenda þegar fram líða stundir.
Bættar samgöngur eru samstarfsnefnd ofarlega í huga. Ástand Skógarstrandarvegar er eitt af því sem samstarfsnefnd hefur komið á framfæri við innviðaráðherra og farið fram á að eitthvað verði gert við. Augljóslega yrði það lyftistöng fyrir Dalabyggð ef vegurinn gæti borið rútur og gæti skilað fleiri ferðamönnum til okkar. Samstarfsnefnd telur að sameinað sveitarfélag sé líklegra í að ná fram slíkum vegabótum en Dalabyggð ein og sér.
Samstarfsnefnd sér tækifæri til að berjast fyrir bættum samgöngum almennt í sveitarfélögunum og til að taka höndum saman við aðliggjandi sveitarfélög. Allar vegasamgöngur eru þar undir, en óhjákvæmilegt er að forgangsraða baráttumálunum ef árangur á að nást.
Í máli fulltrúa Dalabyggðar á íbúafundinum kom fram að aðrir kostir hefðu verið skoðaðir áður en ákveðið var að gengið yrði til viðræðna við Húnaþing vestra og að sveitarstjórn hafi þótt þessu kostur vænlegastur til árangurs. Möguleikar fyrirtækja á Snæfellsnesi til að fjárfesta í Dalabyggð skerðast ekki við sameiningu sveitarfélaganna.
Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags mun taka ákvörðun um það í hvaða landshlutasamtökum hún vill starfa ef af sameiningu verður. Samstarfsnefnd hefur ekki umboð til að svarað því fyrir hönd sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags.
Í 4. grein sveitarstjórnarlaga eru ákvæði um staðarmörk sveitarfélaga. Meginreglan er að þeim verði aðeins breytt með lagasetningu, en ráðherra getur þó breytt mörkum sveitarfélaga í tengslum við sameiningu þeirra eða til staðfestingar á samkomulagi á milli sveitarfélaga um tilfærslu. Það er því fræðilega mögulegt að færa sveitarfélagamörkin á milli tveggja sveitarfélaga annað hvort með lögum eða með samkomulagi á milli viðkomandi sveitarstjórna.
Stutta svarið er nei. Í vinnu samstarfnefndar hefur komið fram skýr vilji til þess að ekki verði gerðar breytingar á þeirri þjónustu sem íbúar ganga að í hvoru sveitarfélagi fyrir sig og fer nefndin þess á leit við sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags í áliti sínu. Gert er ráð fyrir að áfram verði stjórnsýslueiningar á báðum stöðum og ekki gert ráð fyrir að íbúar þurfi að fara á milli þéttbýliskjarna til að sækja þjónustu sveitarfélagsins. Þjónusta sveitarfélaga hefur verið að breytast á síðustu misserum og færst í auknu mæli yfir í rafrænar leiðir. Einboðið er að sú þróun muni halda áfram óháð sameiningu.
Því miður láðist að setja upptökuna í gang eins og til stóð. Við þurfum því að treysta á að upptakan frá fundinum í Búðardal sé nægilega upplýsandi en kynningarnar sem fluttar voru á fundunum voru samhljóða. Ef spurningar vakna má senda þær á dalhun@alhun.is og við munum svara þeim hér.
Áfram þarf að sinna sömu verkefnum og áður á báðum stöðum. Hugsanlega næst samlegð í yfirstjórn, innkaupum og aðkeyptri þjónustu en starfsmannahald ætti ekki að breytast.
Dalabyggð er komin lengra í að uppfylla kröfur í sorphirðumálum en Húnaþing vestra. Því má gera ráð fyrir að þjónustan í Húnaþingi vestra batni til samræmis við Dalabyggð. Þó er vert að taka fram að Húnaþing vestra er að skoða sorpmál ofan í kjölinn og hugsanlega verður hægt að ná hagræðingu með breyttum aðferðum. Það verður þó alltaf verkefni nýrrar sveitarstjórnar.
Nei, það er ekki gert ráð fyrir öðru en að starfsemi skóla verði óbreytt. Á það við um grunn-, leik- og tónlistarskóla. Í Húnaþingi vestra er rekin skólaþjónusta á fjölskyldusviði sem myndi nýtast báðum skólum hvað sérfræðiþjónustu og stuðning varðar. Það þarf ekki að breytast við sameiningu. Með styrkari rekstri og fleiri nemendum ætti að gefast tækifæri til að ráða starfsmenn í hærra starfshlutfall í stöður í stuðningsþjónustu svo sem þroskaþjálfa, iðjuþjálfa, talmeinafræðinga o.s.frv.
Það er ekki hægt að sjá fyrir sér að svo yrði kæmi til sameiningar. Áfram verður hægt að fara yfir í önnur sveitarfélög til að stunda íþróttir og tómstundir.
Skv. lögum þá verða þjónustusvæði málefna fatlaðs fólks og barnaverndarnefnda að vera að ákveðinni stærð m.t.t. íbúafjölda. Þess vegna er samstarf milli sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra um þessa málaflokka og Skagafjörður leiðandi sveitarfélag. Þó það sé nýrrar sveitarstjórnar að ákveða það þá er ekkert sem bendir til þess að þörf sé á því að gera breytingar á því samstarfi.
Vissulega mun akstur aukast og í því felst ákveðinn kostnaður. Það er til dæmis nauðsynlegt að sveitarstjóri og sviðsstjórar hafi viðveru á báðum stöðum. Hvað samvinnu og sérhæfingu starfa varðar þá býður nútíma tækni upp á samvinnu þó svo að fólk sitji ekki á sama stað. Fjöldi fyrirtækja og stofnana er með starfsmenn um allt land, jafnvel erlendis sem hefur reynst vel. Skjalakerfi, bókhaldskerfi, símkerfi o.s.frv. eru ekki bundin við ákveðinn stað og fjarfundabúnaður gerir fólki kleift að vera í miklum samskiptum.
Í áliti samstarfsnefndar er því beint til nýrrar sveitarstjórnar að samræming gjaldskráa sveitarfélaganna verði til lækkunar þar sem munur er á gjaldskrám. Í ljósi aukinna tekna fyrstu 7 árin komi til sameiningar ætti að myndast svigrúm til að skoða álögur almennt með lækkun í huga. Það fjármagn getur líka orðið til þess að minni þörf verður á lántökum sem sparar í fjármagnskostnaði til lengri tíma en þessara sjö ára sem þá skapar enn frekara svigrúm til að halda álögum eins lágum og kostur er, bæta þjónustu og viðhalda hærra framkvæmdastigi en ella.
Samstarfsnefndin hefur verið einhuga um að sameining leiði til bættrar þjónustu og stjórnsýslu en ekki skerðingar. Þrátt fyrir það þá er ljóst að sameining leiðir til samlegðar í einhverjum rekstarþáttum. Má þar nefna endurskoðun, það er hagkvæmara að endurskoða eitt sveitarfélag en tvö. Sveitarfélögin eru með ýmsa þjónustusamninga, má þar nefna þjónustu persónuverndarráðgjafa og mannauðsrágjafa en komi til sameiningar yrði um einn samning á hverju sviði að ræða en ekki tvo. Gera má ráð fyrir að þegar frá líður geti sparnaður af þessum þáttum numið í kringum 15-20 millj króna á ári. Þá er ótalinn rekstur tölvukerfa sem er stór þáttur í rekstri sveitarfélaga og hleypur á milljónum á ári hverju. Þá fjármuni sem sparast við þetta má nýta til góðra verka í þágu íbúa.
Það er rétt að sveitarfélögin tvö eru í ólíkum ”umdæmum” sem getur ef ekki er hugað að skapað flækjustig. Sveitarfélögin eru þó í sama heilbrigðisumdæminu. Í þessu sambandi er vert að benda á að línur sem þessar eru manngerðar og ekkert sem segir að þeim megi ekki breyta eða færa sveitarfélög á milli ”umdæma”, um það eru vissulega til dæmi. Hugsanlega felast í sameiningu tækifæri til að gera breytingar til bóta, í það minnsta hefur gengið ljómandi vel í samstarfinu um heilbrigðisumdæmið. Það má velta fyrir sér hvort þær línur sem dregnar voru á sínum tíma séu þær réttu og hvort þær yrðu dregnar með sama hætti værum við að draga þær í dag. Hugsanlega felast því í sameiningu tækifæri til endurskoðunar sem betur þjónar hagsmunum samfélaganna. Það kemur í hlut nýrrar sveitarstjórnar að skoða þessi mál en vera má að þessar línur verði látnar standa óbreyttar.
Húnaþing vestra er á norðursvæði Vegagerðarinnar en Dalabyggð á vestursvæði. Þarna er því mögulega akkur í því að vera ekki í sama ”umdæminu”. Fjármögnun svæða er aðskilin og ef svæðaskiptingin verður óbreytt þá er ekki um það að ræða að annað svæðið sogi fjármagn frá hinu. Það er svo verkefni sveitarstjórnar að forgangsraða verkefnum sem áhersla er lögð á og að tryggja að öll svæði sveitarfélagsins fái nauðsynlega athygli.
Vegalengdir á milli þéttbýliskjarna eru það miklar að útilokað er að íbúar verði látnir sækja læknisþjónustu á hinn staðinn, þ.e. úr Búðardal á Hvammstanga eða öfugt. Sveitarstjórar hafa fundað með forstjóra HVE sem staðfesti þetta. Sameining mun m.ö.o. ekki hafa nein áhrif á starfsemi stofnunarinnar. Heilbrigðisþjónusta hefur verið að ganga í gegnum breytingar undanfarin ár og mun halda því áfram. Má nefna t.d. fjarlækningar. Sú þróun mun halda áfram óháð sameiningu.
Vegna vegalengda á milli þéttbýlisstaða verður áfram að reka slökkvilið á báðum stöðum. Hugsanlega mætti reka sömu bakvakt en það þarfnast skoðunar og verður ákvörðun sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags komi til sameiningar. Einnig mætti hugsa sér hagstæðari innkaup og samþættingu í þjálfun og slíku. Það er þó ljóst að það þarf að vera stjórnandi yfir slökkviliðunum á báðum stöðum sem heldur utan um starf eininganna og útkallslið.
Það kemur í hlut nýrrar sveitarstjórnar að taka ákvörðun um slíkt. Í sameiningarnefnd hefur ekki verið rætt um að gera breytingar á fjallskiladeildum. Stundum hefur verið sagt að lykillinn að farsælli sameiningu sveitarfélaga er að hrófla ekki við fjallskiladeildum.
Það kemur í hlut undirbúningsstjórnar ef til sameiningar kemur að gera tillögu um skipan nefnd og ráða í sameinuðu sveitarfélagi sem ný sveitarstjórn tekur svo endanlega ákvörðun um. Sameiningarnefnd hefur ekki sett fram tillögu um nefndir og ráð.
Dæmi eru um það að í samþykktir sameinaðs sveitarfélags hafi verið sett ákvæði um að í byggðakjörnum skuli vera ákveðið margir starfsmenn sveitarfélagsins. Það er undirbúningsstjórnar að gera tillögu að samþykktum og nýrrar sveitarstjórnar að taka endanlega ákvörðun. Það er því með þessum hætti hægt að tryggja ákveðinn fjölda starfsmanna á hvorum stað.
Ný sveitarstjórn tekur ákvörðun um skipulag stjórnsýslunnar en á íbúafundum kom fram vilji til heimastjórna eða hverfisráða. Samstarfsnefnd beinir því til nýrrar sveitarstjórnar í áliti sínu að kanna kosti heimastjórna eða annarra viðlíka lausna til að tryggja frekari áhrif íbúa á nærþjónustu.
Það kemur í hlut nýrrar sveitarstjórnar að ráða sveitarstjóra komi til sameiningar. Mun hún velja til verksins þann aðila sem þau treysta best til að starfa í þágu sveitarfélagsins og til þjónustu við íbúa. Það er því ekki hægt að segja til um hver muni stýra sveitarfélaginu frekar en almennt í sveitarfélögum að kjörtímabili loknu. Sveitarstjórar eru ráðnir til fjögurra ára og ráðningartímanum lýkur að afloknum kosningum. Það er því jafnan fyrsta verk sveitarstjórna að ráða sér sveitarstjóra.
