Saga sameininga

Dalabyggð og Húnaþing vestra urðu bæði til við sameiningu nokkurra sveitarfélaga á 10. áratug síðustu aldar. Hrepparnir sem nú tilheyra sveitarfélögunum tveimur voru upphaflega 18. Bæði sveitarfélög ná yfir sýslumörk og ná því samanlagt til fjögurra sýslna; Snæfellssýslu, Dalasýslu, Strandasýslu og Vestur-Húnavatnssýslu.

Dalabyggð varð til árið 1994 við sameiningu Skarðshrepps, Fellstrandarhrepps, sem hafði sameinast Klofningshreppi 1986,  Haukadalshrepps, Laxárdalshrepps, Hvammshrepps og Suðurdalahrepps, sem varð til við sameiningu Hörðudalshrepps og Miðdalahrepps árið 1992. Árið 1998 sameinuðust Dalabyggð og Skógarstrandarhreppur undir nafni Dalabyggðar og árið 2006 bættist Saurbæjarhreppur við. Þar með náði sveitarfélagið til allrar Dalasýslu, auk Skógarstrandarhrepps sem tilheyrði Snæfellssýslu.

Húnaþing vestra varð til árið 1998 við sameiningu Staðarhrepps, Fremri-Torfustaðahrepps, Ytri- Torfustaðahrepps, Kirkjuhvammshrepps, Hvammstangahrepps, Þverárhrepps og Þorkelshólshrepps, sem allir tilheyrðu Vestur-Húnavatnssýslu. Árið 2012 bættist svo Bæjarhreppur í Strandasýslu við hið sameinaða sveitarfélag.